Saturday, October 31, 2009

HALLOWEEEEEEEEEEEN!



















Jæja þá er hrekkjavökukvöld að nálgast endalokin, við Þorleifur lognuðumst bæði útaf með litlu vampírunni eftir gríðarlegt nammiát og talsvert af myndatökum.

-Það var fullt túngl og göturnar morandi í skuggalegum verum. Við eitt húsið sátu norn draugur og beinagrind fyrir framan eldinn með nammikörfu, Flóki horfði á ungann mann ganga upp að þeim og öskra ógurlega og varð mjög hrifinn. Hann ákvað að gera slíkt hið sama, setti uppí sig vígtennurnar, breiddi úr skikkjunni og gekk inn um hliðið stoppaði skammt frá þeim og gaf frá sér brjálæðislegt öskur svo að drauginum, beinagrindinni og norninni krossbrá, en ekki síður honum sjálfum, hann hafði komið sjálfum sér svo á óvart með því að framkvæma atriðið að hann gleymdi að spyrja "trick or treat" heldur hljóp beinustuleið til baka til mömmu sinnar. Og neitaði svo að fara til baka!!

Hann endist svo ekki nema tuttugu mínútur í viðbót, örmagna af troðnum gangstéttum og undarlegum skuggaverum, við skyldum við samferðafólk okkar, foreldra Declans bekkjarbróður Flóka sem voru nokkuð hrifin af skynsemi litlu vampírunnar.
veit nú ekki hversu mikil skynsemi lá þar að baki þó!

Friday, October 16, 2009





pappakassar og uppeldi!

Pappakassarnir komu með eimskip í dag, blendnar tilfinningar gusu fram, ég mundi ekki eftir því að ég ætti helminginn af þessu dóti. Það var dáltið eins og að fá draug í heimsókn frá Íslandi, mig langaði bara til að hrista hann af öxlinni á mér en hann situr hér enn og lætur fara vel um sig í íbúðinni minni. Ég sem var búin að koma mér svo vel fyrir í þessu líka fyrirmyndar mínímalíska ikea umhverfi og svo er "ég" fortíðarinnar að banka uppá með allskyns vitleysu sem mér fannst ægilega fín hugmynd þegar ég pakkaði niður úr Selvogsgrunninum í maí fyrir 5 mánuðum síðan!

þar á meðal eru:
spidermanservéttu pakki
klakapokar
rafknúin uppblásningarvél
sett fyrir 12 af skálum, bollum, undirskálum, diskum, glösum.
sett fyrir 24 af hnífapörum
3 sett af salatskeiðum
tóm geisladiskahulstur utanaf tónlistinni og dvd diskunum sem ég tók með mér í flugið í þægilegum svörtum hulstrum. það fer ægilega vel um diskana í þessum svörtu hulstrum!

þetta er bara byrjunin, ég á eftir að opna 10 kassa!

Nú sé ég framá aðra massífa ferð "til" Ikea. Í þetta skiptið til að versla geymslurými, hirzlur!

Æi svo komu teppið sem amma heklaði og allskyns krúsídúllur sem hin amman mín heklaði og skrilljón fréttablöð með kílóaauglýsingum af hamborgarabrauðum í bónus og sögum á tilboði í húsasmiðjunni og ég fékk dáldinn kökk í íslenska hjartað... langar alltí einu bara að kíkja í kaffi á Guðrúnargötuna.

En þýðir víst ekki að gráta úldinn súr frekar en 3000kílómetra.

Við flóki stöndum í heimspekilegu eða frekar frumspekilegu stappi þessa dagana. Hann er að mikið að velta fyrir sér grunninninntaki réttlætis og siðferðis. Það gerir hann bæði í orðum og gjörðum, hann tók sig t.d. til áðan og kýldi mömmu sína. En það var nú bara afþví að hann fékk ekki alveg nákvæmlega það sem hann vildi, og við vitum öll hvað það er leiðinlegt!!! Fyrir vikið var hann sendur inní herbergið sitt með vekjaraklukku og mátti koma fram þegar hún hringdi klukkutíma síðar. Mesta bræðin rann af honum á fyrstu tuttugu mínútunum og eftir það fannst honum dáltið erfitt að "fyrirgefðu" skyldi ekki leysa hann út á stundinni, ég er ekki frá því að hann hafi lært eitthvað af þessu snúðurinn minn.

í gærkvöldi áttum við eftirfarandi samræður, það var s.s. ekkert lesið í kjölfarið á svæsnu dramakasti um desertinn:
- ætlarðu aldrei aftur að lesa fyrir mig
-ég sagði það ekki, það verður bara ekki lesið í kvöld
- ég veit þú ætlar aldrei aftur að lesa fyrir mig
- hvernig dettur þér í hug að segja það? viltu að ég lesi aldrei aftur fyrir þig?
- nei mamma ég er að spurja þig viltu aldrei aftur lesa fyrir mig?
- ég vil lesa fyrir strák sem er almennilegur og kann að haga sér
- þú vilt aldrei aftur lesa fyrir mig ég veit það
- fyrst þú segir það
- ooooooooooooohrrrg mamma ég er að spurja þig VILTU ALDREI AFTUR LESA FYRIR MIG
- jú ég vil lesa aftur fyrir þig, ef þú vilt að ég lesi fyrir þig, og ef þú ert góður strákur
- vilt aldrei aftur lesa fyrir mig?
- er það það sem þú ert að biðja mig um?
- OOAARHG MAMMA ÞÚ TALAR EKKI TUNGUMÁLIÐ (ekur sér til í rúminu)
ÞÚ SKILUR MIG EKKI, SKILUR EKKI BARNIÐ ÞITT
(með þótta) ÞÚ TALAR EKKI ÍSLENSKU!
(og tauti) ÞÚ TALAR BARA KARABÍSKU!

litla gullið mitt er s.s. að upplifa sína fyrstu almennilegu tilvistarkrísu þar sem hann veltir fyrir sér tilgangi sínum og tilvistarrétti, það hallar dáltið á fórnarlambshliðina á köflum, en það er líka erfitt að vera 5 ára með risastórt egó en viðkvæmt hjarta.

Jæja Íslendingarnir mínir, þá ætla ég að leyfa þessari ritningu að fjúka inn á alnetið og koma sjálfri mér í háttinn.
Vona að mig draumarnir leysi tregann og söknuðinn með sínu dularfulla afli.

gullkveðjur á ykkur
ar

Saturday, September 19, 2009





Friday, September 18, 2009








Thursday, September 17, 2009