Saturday, October 31, 2009

HALLOWEEEEEEEEEEEN!



















Jæja þá er hrekkjavökukvöld að nálgast endalokin, við Þorleifur lognuðumst bæði útaf með litlu vampírunni eftir gríðarlegt nammiát og talsvert af myndatökum.

-Það var fullt túngl og göturnar morandi í skuggalegum verum. Við eitt húsið sátu norn draugur og beinagrind fyrir framan eldinn með nammikörfu, Flóki horfði á ungann mann ganga upp að þeim og öskra ógurlega og varð mjög hrifinn. Hann ákvað að gera slíkt hið sama, setti uppí sig vígtennurnar, breiddi úr skikkjunni og gekk inn um hliðið stoppaði skammt frá þeim og gaf frá sér brjálæðislegt öskur svo að drauginum, beinagrindinni og norninni krossbrá, en ekki síður honum sjálfum, hann hafði komið sjálfum sér svo á óvart með því að framkvæma atriðið að hann gleymdi að spyrja "trick or treat" heldur hljóp beinustuleið til baka til mömmu sinnar. Og neitaði svo að fara til baka!!

Hann endist svo ekki nema tuttugu mínútur í viðbót, örmagna af troðnum gangstéttum og undarlegum skuggaverum, við skyldum við samferðafólk okkar, foreldra Declans bekkjarbróður Flóka sem voru nokkuð hrifin af skynsemi litlu vampírunnar.
veit nú ekki hversu mikil skynsemi lá þar að baki þó!

Friday, October 16, 2009





pappakassar og uppeldi!

Pappakassarnir komu með eimskip í dag, blendnar tilfinningar gusu fram, ég mundi ekki eftir því að ég ætti helminginn af þessu dóti. Það var dáltið eins og að fá draug í heimsókn frá Íslandi, mig langaði bara til að hrista hann af öxlinni á mér en hann situr hér enn og lætur fara vel um sig í íbúðinni minni. Ég sem var búin að koma mér svo vel fyrir í þessu líka fyrirmyndar mínímalíska ikea umhverfi og svo er "ég" fortíðarinnar að banka uppá með allskyns vitleysu sem mér fannst ægilega fín hugmynd þegar ég pakkaði niður úr Selvogsgrunninum í maí fyrir 5 mánuðum síðan!

þar á meðal eru:
spidermanservéttu pakki
klakapokar
rafknúin uppblásningarvél
sett fyrir 12 af skálum, bollum, undirskálum, diskum, glösum.
sett fyrir 24 af hnífapörum
3 sett af salatskeiðum
tóm geisladiskahulstur utanaf tónlistinni og dvd diskunum sem ég tók með mér í flugið í þægilegum svörtum hulstrum. það fer ægilega vel um diskana í þessum svörtu hulstrum!

þetta er bara byrjunin, ég á eftir að opna 10 kassa!

Nú sé ég framá aðra massífa ferð "til" Ikea. Í þetta skiptið til að versla geymslurými, hirzlur!

Æi svo komu teppið sem amma heklaði og allskyns krúsídúllur sem hin amman mín heklaði og skrilljón fréttablöð með kílóaauglýsingum af hamborgarabrauðum í bónus og sögum á tilboði í húsasmiðjunni og ég fékk dáldinn kökk í íslenska hjartað... langar alltí einu bara að kíkja í kaffi á Guðrúnargötuna.

En þýðir víst ekki að gráta úldinn súr frekar en 3000kílómetra.

Við flóki stöndum í heimspekilegu eða frekar frumspekilegu stappi þessa dagana. Hann er að mikið að velta fyrir sér grunninninntaki réttlætis og siðferðis. Það gerir hann bæði í orðum og gjörðum, hann tók sig t.d. til áðan og kýldi mömmu sína. En það var nú bara afþví að hann fékk ekki alveg nákvæmlega það sem hann vildi, og við vitum öll hvað það er leiðinlegt!!! Fyrir vikið var hann sendur inní herbergið sitt með vekjaraklukku og mátti koma fram þegar hún hringdi klukkutíma síðar. Mesta bræðin rann af honum á fyrstu tuttugu mínútunum og eftir það fannst honum dáltið erfitt að "fyrirgefðu" skyldi ekki leysa hann út á stundinni, ég er ekki frá því að hann hafi lært eitthvað af þessu snúðurinn minn.

í gærkvöldi áttum við eftirfarandi samræður, það var s.s. ekkert lesið í kjölfarið á svæsnu dramakasti um desertinn:
- ætlarðu aldrei aftur að lesa fyrir mig
-ég sagði það ekki, það verður bara ekki lesið í kvöld
- ég veit þú ætlar aldrei aftur að lesa fyrir mig
- hvernig dettur þér í hug að segja það? viltu að ég lesi aldrei aftur fyrir þig?
- nei mamma ég er að spurja þig viltu aldrei aftur lesa fyrir mig?
- ég vil lesa fyrir strák sem er almennilegur og kann að haga sér
- þú vilt aldrei aftur lesa fyrir mig ég veit það
- fyrst þú segir það
- ooooooooooooohrrrg mamma ég er að spurja þig VILTU ALDREI AFTUR LESA FYRIR MIG
- jú ég vil lesa aftur fyrir þig, ef þú vilt að ég lesi fyrir þig, og ef þú ert góður strákur
- vilt aldrei aftur lesa fyrir mig?
- er það það sem þú ert að biðja mig um?
- OOAARHG MAMMA ÞÚ TALAR EKKI TUNGUMÁLIÐ (ekur sér til í rúminu)
ÞÚ SKILUR MIG EKKI, SKILUR EKKI BARNIÐ ÞITT
(með þótta) ÞÚ TALAR EKKI ÍSLENSKU!
(og tauti) ÞÚ TALAR BARA KARABÍSKU!

litla gullið mitt er s.s. að upplifa sína fyrstu almennilegu tilvistarkrísu þar sem hann veltir fyrir sér tilgangi sínum og tilvistarrétti, það hallar dáltið á fórnarlambshliðina á köflum, en það er líka erfitt að vera 5 ára með risastórt egó en viðkvæmt hjarta.

Jæja Íslendingarnir mínir, þá ætla ég að leyfa þessari ritningu að fjúka inn á alnetið og koma sjálfri mér í háttinn.
Vona að mig draumarnir leysi tregann og söknuðinn með sínu dularfulla afli.

gullkveðjur á ykkur
ar

Saturday, September 19, 2009





Friday, September 18, 2009








Thursday, September 17, 2009





Thursday, September 10, 2009

Bongó-brjálæðingar og skólamál!

Góða kvöldið

Þá ætla ég að létta á samviskubitinu sem hefur hrjáð mig yfir þessu langa tilkynningahléi, hér kemur póstur síðustu vikna.

Mikið og margt gengið á undanfarið og allt gott sem komið er.

Síðasta sunnudag fórum við Flóki á fjallið eins og það er kallað hér í borg, en inní miðri borginni er gríðarlega stórt svæði (hannað af sama arkitekt og hannaði Central Park) svæðið hverfist í kringum "fjall" við myndum líklegast kalla það góða hæð uppá íslensku en heitir semsagt Mont-Royal.
Svæðið er skógi vaxið m.a. með svæði fráteknu fyrir sjaldgæfar fuglategundir, skil ekki alveg hvernig þeir rata akkúrat á þetta svæði en... svo er þarna stórt vatn sem heitir Lake-Beaver og var fyrir óralöngu morandi í Bjórum en nú eru þeir allir dauðir. Í staðin nota borgarbúar vatnið til að svala sér í á sumrin og skauta á á veturnar. Þetta er ein allsherjar útivistarparadís með göngustígum, hjólabrautum, gönguskíðastígum og fleiru og fleiru. þarna eru líka rúmgóð gassvæði inná milli og á einu slíku römbuðum við Flóki á nokkuð óvenjulegt, á hverjum sunnudegi kemur þarna saman ógrynni af bongótrommuleikurum með trommur og setjast í risastórann hring og bongóast alveg eins og brjálæðingar. Þessu fylgir heljarinnar stemning þar sem fullt af dúkvöfðum ungmennum og hippaklæddum hasshausum eru þarna á heimavelli og dansa í drynjandi takti við bumbusláttinn. Flóki hafði mjög gaman af þessu og ég reyndar líka, við dönsuðum náttúrulega bara eins og vitleysingar!

Nú svo héldum við áfram innar í garðinn og komum að öðru grasi þar sem hópur af fólki myndaði hring utan um einhverja miðju, við nánari skoðunn kom í ljós að í miðjum hringnum stóðu um 50 manns allir klæddir í miðaldabúninga vopnaðir sverðum og spjótum og mynduðu fylkingar í stríði við hver aðra. Tjah. ég veit ekki alveg hvað ég get meira sagt um þetta, ég er alveg bit, þetta hefur viðgengist í þónokkur ár og fólk er mjög mettnaðargjarnt í búningaframleiðslunni. Vopnin eru öll úr einhverjum hættulausum efnum og þáttakendur eru allt frá smápjöttum upp í eldra fólk. Við sátum dáleidd í lengri tíma og fylgdum bardaganum eftir, það eru mjög stífar reglur og þetta er vægast sagt glæsilegt og stórframandi á að líta.
(set myndir inn við fyrsta tækifæri!)

Að þessu loknu var komin tími á góða skógargöngu og við héldum af stað. Mér er orðið morgunljóst að sonur minn er fæddur útivistargarpur og unir sér hvergi betur en í skóglendi. Hann var náttúrulega dáltið veðraður eftir bardagann og hélt af stað galvaskur riddari í göngutúrinn og fullvissaði mömmu sýna ítrekað um að hann myndi verja hana gegn öllum hættum, tígrísdýrum, ljónum, úlfum, drekum ..... svo þaut hann upp upp hóla og hæðir með prik í hendi og var hinn glæstasti.

-------------------------------

Af mér sjálfri er það að frétta að fyrsti skóladagurinn minn var í gær, og ég er himinlifandi glöð með hann. Bekkurinn minn samanstendur af 6 nýjum nemum að mér meðtaldri og svo 6 nemum af öðru ári þar er m.a. hún Stína. Krakkarnir eru mjög áhugaverðir og það er virkilega góð stemning í hópnum. Ég fékk úthlutaðri vinnustofu með glugga svo ég er hæst ánægð. Við erum á 4 hæð í stórri og gamalli byggingu þar sem allt er dáltið subbó og viðkunnalegt. Kennarinn sem sér um deildina mína fram að áramótum heitir Elenor Bond og er mjög viðkunnaleg og þægileg kona. Það sló mig strax hvað mér fannst allir afslappaðir og flinkir í samskiptum hérna.
Svo byrjaði ég áðan í nýjum kúrs hjá annarri frábærri konu sem heitir Laurie Milner og það æxlaðist þannig að ég þurfti að taka Flóka með mér, og svo æxlaðist það þannig að við vorum alltof sein og enduðum á því að hoppa út úr strætó og uppí leigubíl til að ná í tæka tíð! Við stormuðum inn úr dyrunum og Laurie tók brosandi á móti mér og fannst minnsta málið að hafa Flóka með. Hún sagðist einmitt vera að byrja á hugleiðslunni og bauð okkur sæti og þátttöku, hún byrjar s.s. alla tíma á hugleiðslu og 20 mínútna flæðis-skrifum í kjölfarið.. Eitthvað sem hittir í mark á mínum bæ!
Flóki stóð sig svo ótrúlega vel í tímanum að fólk stóð á gati, hann bara sat og teiknaði og borðaði poppkex í 2 tíma!! en þá var líka kyrrsetann búin og hann spændi á hlaupahjólinu eins og brjálæðingur út um alla borg á eftir.

-------------------------------------

Næst á dagskrá er svo að smala saman nokkrum Íslendingum hér í borg í almennilegar amerískar pönnukökur á laugardaginn.. og svo fljúga til þýskalands á sunnudagskvöldið.

næsti póstur verður því áræðanlega um leikhús og þunglyndi og búninga....


kanadaknús á ykkur öll.
hugsum til ykkar
AR&Flóki

Tuesday, September 1, 2009

IKEA overdose en iljandi haustveður!

Jæja þá mín kæru.

Hér hefur ýmislegt gerst síðan síðast, ég er búin að vera netlaus svo lengi að ég hef ekkert getað uppfrætt ykkur, ég er reyndar líka búin að vera alveg brjálæðislega upptekin við það að byggja og hlúa að heimilinu mínu á Clark Street. Mamma greyið er alveg orðin úrvinda afþví að vera hérna, hún er náttúrulega alltof dugleg, og alltaf eitthvað að bardúsa og gera. Við erum búin að sexkannta saman nærri heila búslóð þannig að engann þarf að undra þó að þumlarnir séu aðeins farnir að gefa sig. Í gærkvöldi ákvað ég að rigga saman næst síðasta Ikea hlutnum, risastórri og voða-fínni hvítlakkaðri kommóðu, ég hafði byrjað á henni daginn áður og var nærri hálfnuð. Allavega þá ákvað ég að halda áfram þegar ég hafði svæft Flóka í gærkvöldi, ég kom fram og rétt leit á leiðbeiningabæklinginn, sá að næsta skref var að negla bakhliðina fasta svo ég skellti kommóðunni á magann og skutlaði bakhliðinni ofaná. Svo tók ég mig til og negldi hana fasta, vel og rækilega, ég vildi nú ekki að bakhliðin færi eitthvað að losna af eins og vill svo gjarnan gerast. Nú svo rétti ég kommóðuna við aftur og stóð þarna yfir henni með stollt á vör þegar ég, mér til mikillar skelfingar áttaði mig á því að ég hafði neglt helv.. bakið fast við frammhliðina á kommóðunni!
Kommóðan stendur óhreyfð á stofugólfinu, ég þori ekki að losa bakið af ég er svo hrædd við sýnina sem býður þar undir. (ef einhver hefur lennt í svipuðu klúðri þá eru góð ráð vel þegin!)

Ég sit hérna á ótrúlega skemmtilegu kaffihúsi þar sem tónlistamenn geta skráð sig á stóra krítartöflu uppá vegg og performerar eins og þeim sýnist. Hér er píanó, gítar og rafmagnsgítar og míkrófónn. Þetta augnablikið situr ung dama við píanóið og æfir sig. í gær var galvaskur chet baker spilari við stellið.. Alveg frábær staður.

En hvað er nú að frétta af ykkur öllum, þið verðið bara að halda áfram að kommentera á facebókina mína ég kann ekki að laga þetta komment rugl!

Ég þarf bráðum að sækja Flóka í skólann og gefa honum hádegismat og athuga hvort amman sé heil á húfi heima. Svo ætla ég að demba mér í kommóðuruglið og reyna að redda þessu.

ástarkveðjur og sakn
Anna Rún

Friday, August 28, 2009

Jæja elskurnar..

Hér kemur einn örstuttur á meðan ég bíð.
Ég sit hérna á yndislegu kaffihúsi við hliðina á skólanum hans Flóka, það var fyrsti skóladagurinn hanns í gær, ég var svo stollt að ég nánast sprakk, drengurinn bara gekk inn til allra barnanna og fékk sér sæti í hring á gólfinu. Pínulítill í alltofstórri rauðri hettupeysu með Barbakær utaná og skólatösku sem er hlutfallslega ca 1/3 af líkamsstærðinni hanns! búhúhúhú.. nei djók..hehehe

Hann var reyndar með smá snúð í morgun en þá setti mamman bara galdrakúlu utanum hann og hann gekk galvaskur inn í skólann!

Annars erum við í óða önn að púsla saman Ikea húsgögnum og þrífa nýju fínu íbúðina okkar, sem er algjörlega yndisleg.. Ég hlakka svo til að sýna ykkur myndir, en diskadrifið í tölvunni minni er orðið ónýtt þannig að ég get ekki downloadað disknum til að setja myndir af nýju fínu myndavélinni minni inn í tölvuna!!! týpískt! hahahaha

Við fórum í massífan innkaupa leiðangur í vikunni, við keyptum:
Tvö King size rúm á ofurtilboðið
Æðislega koju handa Flóka, bláa og risastóra þannig að Konni og Snorri geta lúllað uppí hjá honum saman á sama tíma.. Svo er leiksvæði undir
Ótrúlega flottan sófa sem var of stór fyrir hurðina og þurfti að fara aftur í Ikea,, búhúú
Kommóðu
Dótahirslur
og óteljandi litla hluti..

Það var einhvernvegin svo traustvekjandi að koma inn í Ikea að ég keypti alveg brjálæðislega mikið af dóti..

En nú þarf ég að rjúka.. og sækja snúðinn minn.

ást og knús

ar

Sunday, August 23, 2009

Montreal fjórða bók

jæja kæra fólk, þá er loksins komið að stóru fréttunum;

Ég er komin með íbúð
(veeeeeeiiiii///roooooaaaar/klappklappklapp/húrrahúrrahúrra)

Ég þakka viðtökurnar, ég er sjálf mjög hrærð, gæti hreinlega ekki verið ánægðari. Íbúðin er dásamleg 7 og 1/2 eins og það er kallað hér á bæ, flokkast sem 5 herbergja með sér inngangi á þriðju og efstu hæð, björt og falleg.

Flókus maxímus fær sitt eigið herbergi með svölum, ég og Þorleifur fáum stórt tvöfalt herbergi og Sigga systir fær ótrúlega fallegt og stórt herbergi með skáp og rósettum!
Já svo er stofa og náttúrulega eldús með eldavél og ískáp (það er nefnilega ekki sjálfgefið hérna) og meira að segja stórum te/grill/sólbaðs-svölum, nú svo er baðherbergi með baðkari, klósetti og vaski, og jú þvottaherbergi með þvottavél og þurkara og miklu geymsluplássi og þriðju svölunum sem þjóna líka tilgangi brunaútgangs, og getiði hvað???

ÞAÐ ER GESTAHERBERGI!!!!

ég veit ég veit, þetta er ótrúlegt, alveg frábært,, já Signý mín, auðvitað geturðu komið með alla fjölskylduna,, og Solla og Jósi,, ekkert mál þið fáið sérherbergi, já og líka þið öll hin sem eruð í viðbragðsstöðu að panta ykkur miða til mín,,, nú er tíminn, grípið hausttilboðin og látið vaða!

En án gríns, þá er ég svakalega ánægð, það er þungu fargi að mér létt og þá get ég byrjað að einbeita mér að næstu verkefnum. Æi kannist þið ekki við svona ástand þegar maður er með rosalega rosalega rosalega margt frammundan og til þess að geta fúnkerað þarf maður að passa sig að hugsa bara um það sem er mest áríðandi akkúrat þá stundina, Elín vinkona kallar þetta salamí aðferðina! Með þessu áframhaldi líður brátt að því að ég fari að hugsa um myndlist..hmmm

Nú er bara að mubla sig upp, ég er þegar búin að fá svefnsófa og eldhúsborð gefið, við ætlum í alsherjar innkaupaleiðangur í einhverja góða verslun á næstu dögum, kaupa 3 rúm, sófa, hillur, fataslár og ýmislegt fleira..
það er nú ekki beinlínis gefins að standa í svona fluttningum,, en gaman er það, hverjum finnst ekki gaman að versla sér heila búslóð???

knús og kveðjur
ar

Wednesday, August 19, 2009

Ég sit á æðislegu kaffihúsi, til móts við stóra glugga sem vísa út á götu, neonljós og appelsínugul bjalla húka á horninu, það er heitt úti og Phil Collins "all night long" er á blasti í græjunum!

Það er allt net dautt heima hjá okkur svo ég laumaði mér út á kaffihús (uppáhaldskaffihúsið hennar Stínu vinkonu), skyldi snúðinn minn og uppgefnu ömmuna bæði eftir heima fjarverandi að sinna störfum í öðrum víddum!

Þetta er nú meira ævintýrið sem við erum komin út í hérna,, það tók mig ca 4-5 daga að ná mér upp úr sjokkinu sem helltist yfir mig við komuna,, þegar ég áttaði mig skyndilega á því að ég var stödd í landi sem ég þekki ekki, í borg sem ég hef aldrei áður komið til, með 5 ára gamlan son minn, íbúðarlaus, leikskólalaus og vissi einhvernvegin ekki baun í bala. hahahahaha
En svo var náttúrulega engin þörf að örvænta því ég var jú búin að undirbúa okkur talsvert vel undir þetta og svo er fólk hérna alveg með eindæmum elskulegt og hjálplegt.
Nú er því svo komið að ég mun væntanlega skrifa undir leigusamning á gullfallegri íbúð á morgun á Rue Clark, á horninu á næstu götu er skólinn hans Flóka, ný vinkona okkar úr hverfinu hringdi í mig áðan og sagði að ég ætti endilega að fara á morgun og skrá hann í skólann sem byrjar í næstu viku og þau eru einmitt að leita að börnum til að fylla í aukabekk sem þau eru að stofna!
Beint fyrir utan skólann hans er svo stoppistöðin mín til að komast niður í bæ! Haldið að það sé... ....gæti bara ekki verið betra.
Íbúðin er frekar stór og ótrúlega falleg á efstu hæð í þríbýli, ég sendi ykkur myndir við fyrsta tækifæri.

Við þremenningarnir erum búin að plammpa út um alla borg síðustu daga, mamma kvartar sáran við mig því við gleymum alltaf að borða reglulega og einhvernvegin finnst henni það vera mér að kenna, skil ekki alveg afhverju!
En við erum s.s. búin að kynnast borginni þokkalega á þessu rambi, eða a.m.k. ég, það virðist ekki skila miklum árangri hjá mömmu þó!!! hehehe

Flókus maxímus stendur sig eins og hetja, hann er búin að fá mikla uppeldis útreið síðustu daga, enda langt síðan ég hef haft jafn mikinn tíma og svigrúm til að taka hann almennilega í gegn. Og ég held barasta að hann sé að breytast í draumaprins... hann brosir bara eins og engill og hlýðir mömmu sinni :)

Prinsinn eyddi lunganu úr deginum í það að eltast við íkorna út um alla garða, þeir eru jú líka einstaklega heillandi þessi litlu krútt.

En nú ætla ég að tía mig heim á leið.. þarf að vakna snemma til að taka útlendingakúrs í skólanum mínum!

góðar stundir
ar

Sunday, August 16, 2009

Montreal önnur bók

Klukkan er ellefu um kvöld, ég var að hoppa úr sturtunni en svitinn lekur samt af mér, tók nettan tangó við mús í stofunni á leiðinni að tölvunni, náði henni ekki og er ekki lengur viss um að þetta hafi verið mús, gæti líka hafa verið náttfiðrildi sem ferðast um á fjórum fótum! humm.

Það er nú meira hvað það er skrítið að flytjast svona á milli landa. líkaminn er komin fyrir löngu en hugurinn og sálin eru búin að liggja í tætlum yfir atlandshafinu síðan ég kom, mér finnst ég rétt vera að ná helstu pörtunum til baka á sinn stað núna. Sara vinkona sagði alltaf að líkaminn væri kannski bara 6 tíma á milli landa en það tæki sálina allavega 4 daga. Ég held að það sé rétt hjá henni.

Ég er núna búin að eyða 4 dögum í að strolla um borgina, reyna að átta mig á skipulaginu, hverfaskipan, landfræðilegri afstöðu, kúltúr og aldri og mér finnst ég vera að öðlast pínulitla yfirsýn, ég er allavegana komin með helstu línurnar á hreint. Við fórum tvo daga í röð niður í elsta hluta Montreal sem er við höfnina, þar er allt morandi í túristum en staðurinn er töfrum líkastur. Ég vissi að ég var í Kanada í Norður Ameríku en mér leið nákvæmlega eins og ég væri í suður evrópu, Frakklandi eða jafnvel Spáni.

Sturlaða liðið með mikilmennskubrjálæðið sem kom hér að landi á 16 öld og slátraði öllu því sem fyrir var byggði auðvitað bara sömu hús og sömu borgir og það vara að flýja, nýja Frakkland varð endurgerð af gamla Frakklandi! En trúiði mér, staðurinn er verulega heillandi. Það er eitthvað magískt við þetta twist, að sitja í þeirri tilfinningu að þú sért í annarri heimsálfu en þú virkilega ert þar sem menningin er margfallt eldri en staðurinn sjálfur.

Í dag fórum við svo af stað í íbúðaleit. Mér til nokkurs ama eru nánast allar íbúðir í borginni útleigðar, en ég fann eina í dag rándýra en alveg eins og mig hafði dreymt um. Ég held sveimér að ég láti slag standa og treysti á guð og lukkuna að færa mér gjaldeyri í erlendri mynt til að geta staðið í skilum.

En mín kæru, lengri verður þessi pistill ekki í bili.

góðar stundir
&
guð blessi Ísland

ykkar einlæglega Anna Rún

Friday, August 14, 2009

Montreal fyrsta bók.

Jæjjja

þá er komið að því, fyrsti almennilegi ferðapósturinn er að setjast á blað, við erum s.s. komin til Montreal og meira að segja fyrir tveim dögum síðan!

Ég, mamma og Flókos lentum hér í Montreal eftir 9 tíma ferðalag frá Íslandi aðfaranótt fimmtudagsins 13. ágúst. Það voru reyndar ekki nema 6 og 1/2 tími í loftinu, restinni var eytt í útlendingaeftirlitinu í Toronto þar sem við Flóki vorum skoðuð vel og rækilega og síðan stimpluð í bak og fyrir. Við vorum komin í hús um klukkan 11 á Montrealískum tíma þegar allar íslensku kindurnar sváfu sínu blíðasta, enda ísland 4 tímum á undan.
Flóki stóð sig eins og hetja á ferðalaginu og kom ekki dúr á auga fyrr en hann settist inn í leigubílinn í Montreal þá steinsofnaði hann á furðulega stuttum tíma, handviss um það að vera komin á réttan stað.
Í íbúðinni sem við leigðum tók á móti okkur mjög næs fólk, hún er kvikmyndagerðakona og hann tónleikagiggari, þau buðu upp á bjór og skemmtilegt spjall sem dugði þó skammt því við mamma vorum úrvinda eftir ferðalagið.

Eftir alveg hreint með ólíkindum þægilegan aðdraganda að þessum búferlafluttningum, sem ég get með sanni státað mig af því ég var með eindæmum róleg og yfirveguð í aðdragandanum, þá kom loks að því að frökenin varð vör við pínkulítið stress í mallanum!!! A.m.k. vaknaði ég með magakveisu klukkan 5 um morguninn með meðfylgjandi efasemdum og fleiru, það var ekki laust við að það slægu niður hugsunum á borð við "hvað í ósköpunum er ég að gera hérna" eða "hvað er ég að pæla að vera að flytja í borg sem ég þekki ekki baun og það til þriggja ára" ég var að jafna mig framundir hádegi!
Ég gæti reyndar reynt að kenna kartöfluvefjunni um borð í Flugleiða-vélinni um kveisunna, ég veit þó ekki hversu sannfærandi það væri!

Fyrsti dagurinn fór því eðlilega í rúmlegu framundir hádegi og svo rólegheita rölt um hverfið með fólkinu sem við leigjum hjá, þau sýndu okkur allt það helsta m.a. rólóvöll sem er hægt að sturta sig í í gosbrunnum! Flóka fannst það -pínu- skemmtilegt!
Um miðjan dag var komin allt annað hljóð í strokkinn, mér lýst nefnilega svo ansi vel á mig hérna. Borgin er á einhvern hátt mjög ólík öllum öðrum borgum sem ég hef kynnst, en það er samt of fljótt fyrir mig að gefa út frekari analísur um þá tilfinningu, held áfram með það síðar.

Í dag fórum við Flóki og amma Alla niður í bæ, við kíktum á skólann minn Concordia, röltum svo um aðalverslunargötuna St-kathrin, fórum í sund í YMCA eins og í: http://www.youtube.com/watch?v=CS9OO0S5w2k, kvkogm eru með æðislegar laugar út um alla borg, við Flóki skemmtum okkur konunglega í mallkaldri lauginni á meðan ammaAlla sat í óþægilegum stól á bakkanum og las í bók.

Ég álpaðist svo inn í barnabúð áðan þegar ég var á leiðinni í súpermarkaðinn að kaupa í laxapastað, búðin var ansi kunnugleg enda með svipaðann varning til sölu og fæst hjá Sigrúnu í Börnum náttúrunnar, og hér rétt eins og heima þá var eigandinn með beinan naflastreng í Waldorf kúltúrinn hér í bæ,,, ég er því komin með númer hjá Mary sem er með heimaleikskóla að waldorfískum sið hér í næstu götu við mig,, ég ætla að hringja í hana á mánudaginn og kíkja í heimsókn.. Leikskóli fyrir flóka og íbúð til að búa í eru sem sagt aðal áhugamálið þessa dagana..

já svona er nú það. Ég lofa að vera ljóðrænni og dýpri í næstu ferðasögu, ég er of þreytt og of mikið á nýlent á nýjann stað akkúrat núna til að nýta hæfileikana til fulls...

ást og knús á ykkur öll
ar

Friday, August 7, 2009

Lokasprettur íslenskrar tilveru (a.m.k. í bili)

Jæja, þá nálgast áður fjarlægur draumur um Montrealískt líf með list í haga, og það óðfluga. Ég áttaði mig á því í gær þegar ég sendi email út að ég gat sagt " I will be arriving in Montreal next week!!!" úlallalla..

Við Flókus eigum bókað far miðvikudaginn næsta í góðum félagsskap ömmu Öllu, hún ætlar að sjá til þess að dóttirin finni sér sómasamlega íbúð og vera drengnum innan handar meðan móðirin tapar áttum í Kanadískri búrókrasíu.. Hlakka reyndar mikið til að sjá hvernig skriffinskan gengur fyrir sig þarna, ég hef svo ægilega góða tilfinningu fyrir því að þetta sé gjörólíkt því sem ég hef áður reynt. í stúdentabæklingnum fyrir erlenda nemendur stendur "í Concordia eru 3000 erlendir nemendur, komdu endilega við hjá okkur sem fyrst eftir að þú lendir í borginni til að fá þér kaffisopa og spjalla við starfsfólkið. Við vonumst til þess að VERÐA ÞÍN ÖNNUR FJÖLSKYLDA!!! "
Betra verður það nú varla fyrir konu sem flyst einsömul til nýrrar heimssálfu með barnungann son sinn, þekkir engann og er jafnvel pínku stressuð yfir heila klabbinu!

En akkúrat í augnablikinu er ég að bíða eftir því að franska súkkulaði tertan skríði út úr ofninum, ég á nefnilega eftir að framkvæma hitt og þetta áður en ég flýg á vit ævintýranna. Það verður Flóka-afmæli á sunnudaginn fyrir vinina, og 40 manna fjölskyldu partí á mánudagskvöldið, sem ég á reyndar eftir að bjóða í!!! þriðjudagurinn fer í að arransera ofaní ferðatöskurnar, síðan ætla ég að fá mér smá rauðvín og fljúga svo eins og vindurinn með boeing-74eitthvað til Toronto, og þaðan áfram til Montreal.

Við erum búin að leigja margra herbergja höll í miðbænum af frú Zoe Brown, hún verður ásamt börnunum sínum þremur og eiginmanni í sumarbústað fram að mánaðarmótum og því tilvalið fyrir hana að fá nýtt líf í húsið á meðan..

Mín fyrstu verk verða að
* fara á stúdenta skrifstofuna, tilkynna mig og gera allt það sem mér verður sagt að gera þar.
* leita að íbúð sem hentar vel fyrir mig, Flóka og Siggu systur
* finna leiksskóla eins nálægt íbúðinni og mögulegt er (sökum kulda)
* rölta um borgina í góðu tómi, leyfa frönskunni að síast inn og meðtaka borgarskipulagið.
* fara strategískt í að kenna Flóka tungumál sem ég kann ekki sjálf
* skoða dýragarðinn, vatnsrennibrautargarðinn og alla aðra afþreyingu sem getur hjálpað Flóka að sættast við breytingarnar!
* finna jógasetur fyrir mig og karatekennslu fyrir Flóka.

mhh. ágætt að hafa þennan minnislista hérna inni, sjáum svo hversu nálægt skipulaginu ég verð eftir nokkra daga.
En þá er súkkulaðikakan komin úr egginu og ég örmagna eftir tilburði kvöldsins.

góðar stundir mín kæru.
a

Sunday, June 21, 2009

Prufa 1 2 3

Fyrsta blogg færslan, þurfti að búa til nokkur blogg til að hætta við þau þegar þau voru tilbúin, sökum ljótleika. Nú horfi ég á texta skjalið fyrir framan mig, æsispennt að sjá hvernig þetta mun líta út hinummegin í útfærslunni "minimal" eins og mér var lofað!

sjáum sjáum