Thursday, September 10, 2009

Bongó-brjálæðingar og skólamál!

Góða kvöldið

Þá ætla ég að létta á samviskubitinu sem hefur hrjáð mig yfir þessu langa tilkynningahléi, hér kemur póstur síðustu vikna.

Mikið og margt gengið á undanfarið og allt gott sem komið er.

Síðasta sunnudag fórum við Flóki á fjallið eins og það er kallað hér í borg, en inní miðri borginni er gríðarlega stórt svæði (hannað af sama arkitekt og hannaði Central Park) svæðið hverfist í kringum "fjall" við myndum líklegast kalla það góða hæð uppá íslensku en heitir semsagt Mont-Royal.
Svæðið er skógi vaxið m.a. með svæði fráteknu fyrir sjaldgæfar fuglategundir, skil ekki alveg hvernig þeir rata akkúrat á þetta svæði en... svo er þarna stórt vatn sem heitir Lake-Beaver og var fyrir óralöngu morandi í Bjórum en nú eru þeir allir dauðir. Í staðin nota borgarbúar vatnið til að svala sér í á sumrin og skauta á á veturnar. Þetta er ein allsherjar útivistarparadís með göngustígum, hjólabrautum, gönguskíðastígum og fleiru og fleiru. þarna eru líka rúmgóð gassvæði inná milli og á einu slíku römbuðum við Flóki á nokkuð óvenjulegt, á hverjum sunnudegi kemur þarna saman ógrynni af bongótrommuleikurum með trommur og setjast í risastórann hring og bongóast alveg eins og brjálæðingar. Þessu fylgir heljarinnar stemning þar sem fullt af dúkvöfðum ungmennum og hippaklæddum hasshausum eru þarna á heimavelli og dansa í drynjandi takti við bumbusláttinn. Flóki hafði mjög gaman af þessu og ég reyndar líka, við dönsuðum náttúrulega bara eins og vitleysingar!

Nú svo héldum við áfram innar í garðinn og komum að öðru grasi þar sem hópur af fólki myndaði hring utan um einhverja miðju, við nánari skoðunn kom í ljós að í miðjum hringnum stóðu um 50 manns allir klæddir í miðaldabúninga vopnaðir sverðum og spjótum og mynduðu fylkingar í stríði við hver aðra. Tjah. ég veit ekki alveg hvað ég get meira sagt um þetta, ég er alveg bit, þetta hefur viðgengist í þónokkur ár og fólk er mjög mettnaðargjarnt í búningaframleiðslunni. Vopnin eru öll úr einhverjum hættulausum efnum og þáttakendur eru allt frá smápjöttum upp í eldra fólk. Við sátum dáleidd í lengri tíma og fylgdum bardaganum eftir, það eru mjög stífar reglur og þetta er vægast sagt glæsilegt og stórframandi á að líta.
(set myndir inn við fyrsta tækifæri!)

Að þessu loknu var komin tími á góða skógargöngu og við héldum af stað. Mér er orðið morgunljóst að sonur minn er fæddur útivistargarpur og unir sér hvergi betur en í skóglendi. Hann var náttúrulega dáltið veðraður eftir bardagann og hélt af stað galvaskur riddari í göngutúrinn og fullvissaði mömmu sýna ítrekað um að hann myndi verja hana gegn öllum hættum, tígrísdýrum, ljónum, úlfum, drekum ..... svo þaut hann upp upp hóla og hæðir með prik í hendi og var hinn glæstasti.

-------------------------------

Af mér sjálfri er það að frétta að fyrsti skóladagurinn minn var í gær, og ég er himinlifandi glöð með hann. Bekkurinn minn samanstendur af 6 nýjum nemum að mér meðtaldri og svo 6 nemum af öðru ári þar er m.a. hún Stína. Krakkarnir eru mjög áhugaverðir og það er virkilega góð stemning í hópnum. Ég fékk úthlutaðri vinnustofu með glugga svo ég er hæst ánægð. Við erum á 4 hæð í stórri og gamalli byggingu þar sem allt er dáltið subbó og viðkunnalegt. Kennarinn sem sér um deildina mína fram að áramótum heitir Elenor Bond og er mjög viðkunnaleg og þægileg kona. Það sló mig strax hvað mér fannst allir afslappaðir og flinkir í samskiptum hérna.
Svo byrjaði ég áðan í nýjum kúrs hjá annarri frábærri konu sem heitir Laurie Milner og það æxlaðist þannig að ég þurfti að taka Flóka með mér, og svo æxlaðist það þannig að við vorum alltof sein og enduðum á því að hoppa út úr strætó og uppí leigubíl til að ná í tæka tíð! Við stormuðum inn úr dyrunum og Laurie tók brosandi á móti mér og fannst minnsta málið að hafa Flóka með. Hún sagðist einmitt vera að byrja á hugleiðslunni og bauð okkur sæti og þátttöku, hún byrjar s.s. alla tíma á hugleiðslu og 20 mínútna flæðis-skrifum í kjölfarið.. Eitthvað sem hittir í mark á mínum bæ!
Flóki stóð sig svo ótrúlega vel í tímanum að fólk stóð á gati, hann bara sat og teiknaði og borðaði poppkex í 2 tíma!! en þá var líka kyrrsetann búin og hann spændi á hlaupahjólinu eins og brjálæðingur út um alla borg á eftir.

-------------------------------------

Næst á dagskrá er svo að smala saman nokkrum Íslendingum hér í borg í almennilegar amerískar pönnukökur á laugardaginn.. og svo fljúga til þýskalands á sunnudagskvöldið.

næsti póstur verður því áræðanlega um leikhús og þunglyndi og búninga....


kanadaknús á ykkur öll.
hugsum til ykkar
AR&Flóki

3 comments:

  1. Gaman að lesa um Mount Royal ferðina ykkar, því við upplifðum nánast allt þetta fyrir um ári síðan ;) Svaka gaman. Það er yndislegt að hafa svona grænt svæði inn í borg. Þið eigið án efa eftir að fara þarna oft og mörgu sinnum í göngutúra.
    Frábært að skólinn leggist vel í þig. Gangi ykkur vel.

    Bestu kveðjur
    Hildur BJörk

    ReplyDelete
  2. frá ömmu sem hafði það tækifæri að fylgja ykkur til stóra landsins og fá smá innsýn í tilveru ykkar eins og hún er núna. Þetta var ógleymanlegt og mér mjög dýrmætt og segi ég stolt hverjum sem heyra vill hvað ég eigi frábæra dóttur og barnabarn. Ég grínast með að ég hafi lennt beint á Reykjalund eftir veruna "hm" En það er búið að standa lengi til bara skondin tímasetning. Hafið það sem allra best, elska ykkur, amma,mamma

    ReplyDelete
  3. æðislegt hvað allt gengur vel, þetta hljómar alveg brjálæðislega spennandi allt saman hjá ykkur. næst þegar ég sé ykkur verður flóki orðin tveir og tíu á hæð, hlaðinn riddarasverðum og orðin reiprennandi á úglenskunni.
    knús yfir hnöttinn

    ReplyDelete